Sigrún Hjálmtýsdóttir, Ragnar Bjarnason, Björgvin Halldórsson og Egill Ólafsson eru meðal þeirra sem sjá um tónlistarflutning við útför Hermanns Gunnarssonar sem fram fer í Hallgrímskirkju kl. 15 í dag. Sjónvarpað verður frá athöfninni í Valsheimilið að Hlíðarenda, en þar verður erfidrykkjan einnig haldin.
Á undan athöfninni í Hallgrímskirkju munu fram koma Sigrún Hjálmtýsdóttir, Guðrún Gunnarsdóttir, Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Ragnar Bjarnason, Jónas Þórir Þórisson og Matthías Stefánsson.
Í athöfninni mun Karlakórinn Fóstbræður undir stjórn Árna Harðarsonar flytja tónlist. Einsöngvarar verða: Sigrún Hjálmtýsdóttir, Björgvin Halldórsson, Kristján Jóhannsson, Egill Ólafsson og Sigríður Thorlacius. Um orgel og píanóleik sér Jónas Þórir Þórisson. Matthías Stefánsson leikur á fiðlu.
Pálmi Matthíasson jarðsyngur.