Samþykkt var á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun að fara fram á það við Fjármálaeftirlitið að það kannaði hvort Drómi gangi lengra í innheimtu gagnvart lántakendum en aðrar lánastofnanir.
Frosti Sigurjónsson, formaður nefndarinnar, segir í samtali við mbl.is að í því sambandi sé vísað til 101. gr. a. í lögum um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið er á um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með rekstri fjármálafyrirtækis sem er stýrt af slitastjórn, viðskiptahátta þess og að framganga þess gagnvart viðskiptavinum sé í samræmi við það sem almennt tíðkist hjá fjármálafyrirtækjum með gilt starfsleyfi.
„Þetta ákvæði var sérstaklega sett til þess að slitastjórnir hegðuðu sér ekki öðruvísi gagnvart sínum viðskiptavinum en aðrar lánastofnanir með starfsleyfi,“ segir hann. Nefndin hafi sent Fjármálaeftirlitinu bréf í þessum efnum þar sem óskað sé eftir skjótum svörum. Stofnunin hafi eftirlitsskyldu í þessum efnum og geti beitt viðurlögum sé ástæða talin til þess.