„Ritgerðin hefur breiða skírskotun og varðar okkur öll, því mörg erum við í mynd á hverjum degi. Þróunin er sú að rafræn vöktun hefur færst í aukana, það kveikti áhuga minn á að rannsaka þetta efni,“ segir Katrín Þórðardóttir lögfræðingur um efni lokaritgerðar sinnar, Myndvöktun, sem var valin besta meistararitgerðin árið 2012 við vorútskrift lagadeildar Háskóla Íslands 2013.
Verðlaunin voru veitt af lögmannsstofunni Lögmenn Lækjargötu í samstarfi við lagadeildina, en sérstök matsnefnd sá um að velja bestu ritgerðina. Ritgerð Katrínar fjallar um rafræna vöktun með myndavélum með tilliti til reglna persónupplýsingaréttarins. Særún María Gunnarsdóttir, lögfræðingur, var leiðbeinandi hennar. Hingað til hefur ekki verið fjallað um efnið með heildstæðum hætti.
„Þetta er lögfræðirannsókn sem staðsetur fólk í þessu efni. Hún skapar grundvöll fyrir umræðu um hin ýmsu álitaefni sem koma upp. Þarna eru leiðbeiningar um hvernig rétt sé að standa að ákveðnum hlutum og hvernig hægt sé að komast að niðurstöðu í ágreiningsmálum.“
Rafræn vöktun með myndavélum hefur aukist til muna og er í ritgerðinni vitnað til rannsóknar í þjóðfræði þar sem 290 myndavélar voru taldar á afmörkuðu svæði í miðborg Reykjavíkur sumarið 2010. Katrín bendir á að í gildi sé ákveðin fræðslu- og viðvörunarskylda þeirra sem viðhafa myndvöktun.
Ritgerðin nýtist t.d. stofnuninni Persónuvernd og einkaaðilum sem og þeim sem munu koma að lagasetningu á þessu sviði. Lögin ná jafnt yfir einkaaðila og opinbera aðila.
Það þarf að greina aðstæður nokkuð nákvæmlega þar sem til stendur að vakta, staðsetning myndavéla, sjónarhorn og fjöldi þeirra skiptir máli. Í ritgerðinni eru meðal annars nefnd dæmi um myndvöktun á vinnustöðum, veitingastöðum, í verslunum og orlofshúsi.
„Það var gaman að skoða og greina dæmi úr framkvæmd um vöktun á heimavist framhaldsskóla. Í því tiltekna máli sem ég nefndi Heimavist II varð niðurstaða málsins sú að sú rafræna vöktun sem fram fór í þvottahúsi, tölvuveri, anddyrum og utandyra á heimavistinni var talin samræmast lögum og reglum. Vöktun á göngum heimavistarinnar var hins vegar ekki talin vera í lagi. Þar þurfti meðal annars að líta til reynslu, þ.e. hvort ofbeldi hefði verið vandamál eða þjófnaðir algengir. Meta þurfti hvort vægari úrræði dygðu eins og gæsla og gangaeftirlit.“
Hún bendir á að það þarf líka að gæta þess að unnið sé með upplýsingar um rétta einstaklinga þannig að ekki séu unnar persónuupplýsingar um óviðkomandi einstaklinga fyrir mistök sem gætu haft afleiðingar fyrir þá. Þetta tengist svokallaðri áreiðanleikareglu.
Katrín segir að álitaefni tengd myndvöktun verði fleiri eftir því sem hún verður almennari í samfélaginu og möguleikar til hennar aukast með örri tækniþróun. Þá reynir á samspil margra reglna sem oft eru matskenndar.
„Persónuupplýsingalögum er í senn ætlað að tryggja heimildir fyrir myndvöktun og nauðsynlega vinnslu myndefnis og standa vörð um réttindi þeirra sem koma fyrir á myndefni. Það er æskilegt að þarna sé náð skynsamlegu jafnvægi. Lögin leggja ábyrgðaraðila ríkar skyldur á herðar í þessum efnum, en hinum skráða, þeim sem kemur fyrir á myndefni, eru þar jafnframt tryggð mikilvæg réttindi,“ segir Katrín og bendir á að almenn þekking og virðing fyrir lögunum sé þýðingarmikil í samfélagi nútímans.