Forsetinn á söguslóðum Íslendinga í Þýskalandi

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Sigurgeir Sigurðsson

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson lauk opinberri heimsókn sinni til Þýskalands með margvíslegum atburðum á söguslóðum íslenskra tónlistarmanna og rithöfunda í Leipzig.

Í morgun var sérstök samkoma í Tónlistarháskólanum í Leipzig þar sem minnst var frumkvöðla íslenskrar tónlistar, m.a. Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, Páls Ísólfssonar, Jóns Leifs, Sigurðar Þórðarsonar og Helgu Guðjónsdóttur, sem stunduðu nám á fyrstu áratugum 20. aldar við Tónlistarháskólann í Leipzig. Í ávarpi þakkaði forseti þessari merku menntastofnun í evrópsku tónlistarlífi fyrir þau áhrif sem hún hefði haft á frumkvöðla íslensks tónlistarlífs og rakti ýmsa þætti í ævi tónskáldanna og hvernig þeir hefðu markað djúp spor við mótun upphafs þess tónlistarlífs sem við lok 20. aldarinnar var orðið öflugur þáttur í menningarlífi Íslendinga.

Á samkomunni voru flutt verk m.a. eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Jón Leifs og Pál Ísólfsson og meðal flytjenda voru orgelleikarinn Eyþór Franzson Wechner og tenórsöngvarinn Benedikt Kristjánsson. Einnig fluttu ávörp á samkomunni Halldór Guðmundsson rithöfundur sem fjallaði um tengsl Halldórs Laxness og annarra íslenskra rithöfunda við Leipzig. Þá flutti sendiherra Íslands í Þýskalandi, Gunnar Snorri Gunnarsson, ræðu um þrjú þeirra íslensku tónskálda sem menntun hlutu í Leipzig.

Að lokinni athöfn í ráðhúsi Leipzig afhjúpaði forseti minningarskjöld um Jóhann Jónsson skáld, höfund hins þekkta kvæðis Söknuðar, sem lifði og starfaði í Leipzig eftir að hann kom frá Íslandi og þar til hann lést úr berklum í borginni ungur að árum. Skjöldurinn er á húsinu þar sem Jóhann bjó og andaðist, Körnerstrasse 12-14. Í stuttu ávarpi minntist forseti á eftirminnilega frásögn Halldórs Laxness af heimsókn hans til Jóhanns.

Um morguninn flutti forseti fyrirlestur í Háskólanum í Leipzig um átök lýðræðis og markaða. Að honum loknum svaraði forseti fyrirspurnum en mikill fjöldi stúdenta sótti fyrirlesturinn.

Heimsókninni lauk svo í Nikulásarkirkjunni sem var vettvangur bænastunda og friðsamlegra mótmæla íbúa borgarinnar þegar lýðræðishreyfingin 1989 var að velta alræðisstjórninni úr sessi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert