Gefa bágstöddum í Lettlandi hjálpartæki

Samtökin Humanity for good sendir gám af hjálpartækjum til Lettlands
Samtökin Humanity for good sendir gám af hjálpartækjum til Lettlands

„Ég stofnaði samtökin árið 2007 og markmiðið er að aðstoða bágstödd lönd við að stofna hjálpartækjabanka í hverju landi fyrir sig. Hugsunin er að fatlaðir geti komið þangað og fengið lánaðan hjólastól, göngugrind og þessi tæki sem það þarf,“ segir Kristín Einarsdóttir, en samtökin „Humanity for good“ senda næsta fimmtudag út til Lettlands fullan gám af hjálpartækjum fyrir fatlaða og sjúka.  

Bleyjur og hjálpartæki

Samtökin starfa með viðurkenndum samtökum fatlaðra í hverju landi fyrir sig, en í Lettlandi er það velferðarráðuneytið. Auk þess að stofna hjálpartækjabanka í löndunum senda samtökin út ýmsan búnað sem ætlaður er munaðarleysingjum á Teika munaðarleysingjahælinu í Riga, höfuðborg Lettlands.

„Við viljum aðstoða munaðarlaus fötluð börn beint með því að gefa hjálpartæki, föt og bleyjur beint inn á munaðarleysingjahælin, því framlögin frá ríkinu duga bara fyrir því allra brýnasta eins og húsaskjóli og mat.“ Síðar á þessu ári stefna samtökin að því að senda hjálpartæki til Sri Lanka. 

Hvetja fólk til að aðstoða við að fylla gáminn

Frjáls framlög fjármagna hjálpartækin auk þess sem samtökin hafa fengið gefins afskrifuð hjálpartæki frá heilbrigðisstofnunum hérlendis. Nú á laugardaginn hefst vinnan við að flytja hjálpartækin úr húsnæði samtakanna í Bæjarlind 2 í Kópavogi og í gáminn sem mun ferja þau. „Það væri frábært ef fólk væri tilbúið að mæta til okkar á laugardaginn og leggja okkur lið við að fylla gáminn,“ segir Kristín að lokum.

„Hugsunin er að fatlaðir geti komið í hjálpartækjabankann og fengið …
„Hugsunin er að fatlaðir geti komið í hjálpartækjabankann og fengið lánaðan hjólastól, göngugrind og þessi tæki sem það þarf.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert