Kröfum verjenda í Aurum-máli hafnað

Frá þingfestingu Aurum-málsins. Lárus Welding ásamt verjanda sínum, Óttari Pálssyni
Frá þingfestingu Aurum-málsins. Lárus Welding ásamt verjanda sínum, Óttari Pálssyni mbl.is/Styrmir Kári

Héraðsdómari kvað í dag upp úrskurð þess efnis að hafna kröfu verjenda sakborninga í Aurum-málinu svokallaða um að fá aðgang að öllum gögnum sem lögregla aflaði við rannsókn málsins og varða skjólstæðinga þeirra.

Sérstakur saksóknari hafnaði kröfunni og sagði ekki hægt að biðja um ótakmarkaðan aðgang að öllum gögnum. Rannsókn sakamála sé samkvæmt lögum í höndum lögreglu ekki verjenda.

Í Aurum-málinu eru þeir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeilt í umboðssvikum sem eru sögð hafa átt sér stað þegar Glitnir veitti félaginu FS38 sex milljarða króna lán til kaupa á félaginu Aurum Holding.

Sakborningar mættu ekki við uppkvaðningu úrskurðarins, sem verjendur sögðu munu verða kærðan til Hæstaréttar sé lagaheimild fyrir því, en það er ekki fyllilega skýrt.

Dómari í málinu ákvað að fresta málinu til 11. september næstkomandi því þá væru horfur á að yfirmat, sem krafist hefur verið að fari fram í málinu, væri lokið og það horfi til tímasparnaðar.

Frétt mbl.is: Verjendur vilja rannsaka málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert