Námsmenn fordæma vinnubrögð

Háskóli Íslands. Námsmannahreyfingar Íslands fordæma vinnubrögð sem viðhöfð voru í …
Háskóli Íslands. Námsmannahreyfingar Íslands fordæma vinnubrögð sem viðhöfð voru í aðdraganda samþykktar á úthlutunarreglum LÍN. mbl.is/Ómar Óskarsson

Námsmannahreyfingar Íslands fordæma vinnubrögð sem viðhöfð voru í aðdraganda samþykktar á úthlutunarreglum LÍN. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hreyfingunum. Þar segir að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunafélög nemenda og hafi ákvörðun stjórnar LÍN komið stúdentum í opna skjöldu.  

„Er það álit okkar að meira þurfi til en tveggja klukkustunda fund hjá nýkjörinni stjórn til að taka jafn veigamikla ákvörðun og þessa. Aðlögunartímabilið er að sama skapi of stutt og Umboðsmaður Alþingis hefur áður ávítt stjórn LÍN og Mennta- og menningamálaráðuneytið fyrir of lítinn fyrirvara á breytingum á úthlutunarreglum,“ segir í tilkynningunni. 

Má því segja að sagan sé að endurtaka sig og gera má ráð fyrir að áætlanir margra stúdenta á komandi ári munu nú raskast vegna breytinganna. Vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðandi og því verður ekki tekið þegjandi að svona verklag sé viðhaft hjá stjórn opinberrar lánastofnunar.

Fordæma niðurskurðarkröfu

Þá fordæma námsmannahreyfingarnar þá ákvörðun stjórnvalda að leggja niðurskurðarkröfu á lánasjóð námsmanna. Hreyfingin segir kjör íslenskra stúdenta töluvert bágbornari en á hinum Norðurlöndunum en þar hljóta stúdentar styrki að viðbættum valkvæðum lánum. Því er forkastanlegt að stjórnvöld ætli sér að draga enn úr kjörum íslenskra námsmanna,“ segir í tilkynningunni. 

Hreyfingarnar segja þá einhliða ákvörðun um að mæta niðurskurði með auknum kröfum um námsframvindu skammsýna. Einingafjöldinn sem nú verður krafist sé í ósamræmi við þá umgjörð sem háskólarnir bjóða upp á en við þrengingu svigrúmsins er einfaldlega verið að draga úr fjölda þeirra sem hljóta lánstökurétt.

„Einhliða, illa ígrundaðar ákvarðanir sem teknar eru í flýti, eins og þær sem hafa verið teknar varðandi lánasjóðinn, misbjóða íslenskum námsmönnum gróflega. Íslenskir námsmenn gera skýlausa kröfu um að fallið verði frá fyrirætlunum um niðurskurð og að breytingar á úthlutunarreglum verði endurskoðaðar,“ segir í tilkynningunni. 

Undir tilkynninguna rita nemendafélag Háskólans á Bifröst, nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands, nemendaráð Listaháskóla Íslands, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Samband íslenskra framhaldsskólanema, félag stúdenta við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra námsmanna erlendis, Stúdentafélag Háskólans á Hólum, Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík og Stúdentaráð Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert