„Framkvæmdirnar eru hafnar og við stefnum að því að geta klárað verkið í júlí,“ segir Ingólfur Eyfells, verkefnastjóri hjá Landsneti, en fyrirtækið vinnur nú að því að leggja nýjan rafstreng til Vestmannaeyja.
„Bæði á Landeyjasandi og í Vestmannaeyjum eru framkvæmdir við landhluta strengsins hafnar en skipið sem kemur með sæstrenginn til landsins liggur nú í vari í Færeyjum vegna veðurs,“ segir Ingólfur. Alls þarf að leggja þriggja og hálfs kílómetra landstreng um Landeyjasand og um kílómetra langa leið í Vestmannaeyjum. Lagning strengsins í sjónum er talin munu taka um fjóra daga ef veður helst gott.
Strengurinn ber heitið Vestmannaeyjastrengur 3 og mun hann geta borið 66 kílóvolta spennu sem er töluvert meira en núverandi strengir. Strengurinn mun leysa af hólmi Vestmannaeyjastreng 2 sem er illa farinn og ótraustur. Nokkur fyrirtæki í Vestmannaeyjum hafa á undanförnum árum lýst yfir áhyggjum af ástandi Vestmannaeyjastrengs 2 og hafa bent á þær afleiðingar sem bilun á strengnum kunni að hafa til dæmis á loðnubræðslu á miðri loðnuvertíð. Ljóst er að með nýjum streng færist aukið öryggi í rafmagnsflutning til Vestmannaeyja.
Til að byrja með mun strengurinn einungis flytja svipað mikið rafmagn og áður hefur verið, en hann býður þó upp á möguleikann á að auka rafmagnsflutninginn töluvert. Hætt verður notkun á Vestmannaeyjastreng 2 en strengur 1, sem lagður var árið 1962, verður áfram í notkun. Sá strengur ber þó ekki mikið rafmagn.