Reynsluleysi leiðir til auka álags

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala tekur undir áhyggjur læknaráðs frá 13. júní sl. vegna bágrar mönnunar hjá læknum á spítalanum nú í sumar.

„Til að gegna störfum deildarlækna og læknakandídata hafa fjórða og fimmta árs læknanemar verið ráðnir í sumarafleysingar. Nemarnir eru með litla reynslu af klínískri vinnu og eru faglega ekki undirbúnir undir þá ábyrgð sem á þá er lögð.  Reynsluleysi þeirra leiðir af sér mikið auka álag á annað starfsfólk á spítalanum og hætt er við að tafir verði á úrlausnum flókinna viðfangsefna sem og útskrift sjúklinga,“ segir í ályktun stjórn hjúkrunarráðsins.

„Á Landspítala er mikil áhersla lögð á öryggi sjúklinga og gæði í þjónustu. Sú ábyrgð sem lögð er á þessa læknanema er vart í samræmi við þá stefnu,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert