Saga mormóna í Vestmannaeyjum

Herjólfsdalur í Vestmannaeyjum
Herjólfsdalur í Vestmannaeyjum mynd/Frosti Heimisson

Þann 19 júní sl.  voru 160 ár síðan mormónar stofnuðu kirkju á Íslandi, en það var árið 1853 í Herjólfsdal. Í tilefni af því verður boðið upp á sögustund í golfskálanum í Eyjum á á morgun milli 13 og 15 þar sem farið verður yfir sögu þeirra hér á landi. Fjallað verður um ævi og örlög sumra þeirra sem fluttust búferlum frá Vestmannaeyjum til Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á heimasíðu Eyjafrétta. 

Meðal gesta í golfskálanum verður Mark Geslison, en hann er sonarsonur Sigmundar Gíslasonar úr Jónshúsi og Sveinsínu Árnadóttur frá Löndum, en þau fluttust sem börn á sínum tíma ásamt foreldrum sínum frá Vestmannaeyjum til Utah í Bandaríkjunum. Fjölskyldan hafði tekið upp mormónatrú en sótt var að þeim vegna trúarinnar hér á landi og fluttu þau því búferlum. 

Mark hefur getið sér gott orð sem fiðluleikari og mun hann leika ásamt fjölskyldu sinni ýmis ljóð eftir höfunda sem fluttust frá Vestmannaeyjum á sínum tíma. Fjögur erindi verða flutt, á íslensku og ensku, meðal annars um rannsóknir Siguróla Sigurðssonar á upphafi mormónskunar í Vestmannaeyjum. Dagskráin er opin öllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert