Ekkert samráð var haft við Náttúrustofu Suðurlands áður en ákveðið var í bæjarráði Vestmannaeyja á miðvikudaginn að leyfa lundaveiðar í Vestmannaeyjum í sumar. Sérfræðingar stofunnar segja veiðar ósjálfbærar.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Náttúrustofu Suðurlands, sem undirrituð er af Dr. Ingvari Atla Sigurðssyni, forstöðumanni, og Dr. Erpi Snæ Hansen, sviðstjóra vistfræðirannsókna. „Undanfarin ár hefur viðkoma lundastofnsins í Vestmannaeyjum verið minni en nemur viðhaldi stofnsins og veiðar því ósjálfbærar.“
Á fundi bæjarráðsins var ákveðið að heimila lundaveiðar frá 19. júlí til 31. júlí. Á fundinn komu fulltrúar bjargveiðimanna og gerðu grein fyrir afstöðu sinni til veiða og gjaldheimtu. Mat þeirra var að heimila ætti einhverja opnun á veiðum og treysta veiðimönnum til að meta ástandið.
Bjargveiðimennirnir sögðust byggja mat sitt á árhundraða reynslu af nýtingu bjargfugla og vissulega hefði orðið forsendubrestur í viðkomu lundans vegna ætisskorts. Engu að síður töldu þeir óhætt að heimila takmarkaða veiði og þá ekki síst til að viðhalda verklagi, menningu og hefðum sem hvíla á árhundraða sögu.
Frétt mbl.is: <a href="/frettir/innlent/2013/06/27/lundaveidar_leyfdar_i_sumar/" target="_blank">Lundaveiðar leyfðar í sumar</a>