Engar skemmdir eru að finna á fiskiskipinu Þórsnesi II, sem strandaði á skeri í gær, en kafarar hafa nýlokið við að skoða skipið. Lögreglan á Snæfellsnesi hefur rætt við skipstjórann um atvikið, en hann sagði að mælingar og sjókort af svæðinu þar sem skipið strandaði séu ónákvæm.
Rannsóknarnefnd samgönguslysa mun rannsaka málið og í samtali við mbl.is segir Jón Arilíus Ingólfsson, forstöðumaður rannsóknarnefndar sjóslysa, að gagnaöflun sé hafin. Nefndin mun m.a. óska eftir ferilskráningu skipsins frá Vaktstöð siglinga.
„Þá sér maður hvernig hann hefur athafnað sig,“ segir Jón og bætir við að nefndi muni einnig taka skýrslu af skipstjóranum.
Viðbúnaður var mikill eftir að tilkynning barst í gær um að skipið, sem var á beitukóngsveiðum, hefði strandað á skeri við Skoreyjar á Breiðafirði, skammt frá Stykkishólmi.
Björgunarsveitir, lögregla, Landhelgisgæslan, Umhverfisstofnun, starfsmenn Olíudreifingar og fulltrúar frá rannsóknarnefnd samgönguslysa voru á meðal þeirra sem fóru á vettvang í gær.
Samkvæmt upplýsingum stjórnstöðvar Gæslunnar losnaði Þórsnes II af strandstað kl. 21:19 í gærkvöldi með aðstoð togarans Helga SH 135. Dráttartaug var komið fyrir milli skipanna og gengu björgunaraðgerðir greiðlega. Ekki varð vart við olíumengun frá svæðinu og sigldi skipið undir eigin vélarafli til Stykkishólms.
Líkt og fram hefur komið voru níu í áhöfn skipsins og var þeim bjargað fljótt í land. Hún var að leggja krabbagildrur þegar óhappið varð.
Skipið sat á skerinu og fjaraði næstum alveg undan því. Umhverfisstofnun sendi bráðamengunarbúnað á staðinn og var farið með flotgirðingu út að skipinu en hún var ekki notuð þar sem ekki varð vart við neina olíumengun.
„Það er mikill munur á flóði og fjöru hérna á þessum stað. Það breytist heldur betur landslagið í Breiðafirðinum; þetta eru fimm metrar,“ segir Jón um hæðarmuninn á flóði og fjöru.