Ský og skúrir ráða ríkjum

Þeir sem bíða spenntir eftir sól og 20 stiga hita verða að bíða enn um sinn, sérstaklega íbúar á suðvesturhorni landsins. Veðurstofan spáir hæglætisveðri með skúrum á morgun og á sunnudag og verður hiti á bilinu 7-15 stig. Veðrið verður að öllum líkindum skást á Suðausturlandi.

„Þetta er skúrakennt víðast hvar núna nema á Suðausturlandi. Það hvessir aðeins seinni partinn en síðan fer að lægja eftir það og rofa til. Á laugardag verður hæg suðvestlæg átt og einhverjar skúrir áfram á Norðurlandi en úrkomulítið sunnanlands,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann að gera megi ráð fyrir að víðast hvar verði skýjað. „Kannski að það verði nú einhver sólarglæta á Suðausturlandi á morgun. Það [veðrið] verður kannski hvað best þar,“ segir Hrafn.

Á sunnudag megi öllu jafna búast áfram við hæglætisveðri og síðdegisskúrum.

„Allavega næstu fimm daga þá verður þetta nú frekar svalt og vætukennt,“ bætir Hrafn við. Aðspurður segir hann að veðrið í júní hér á höfuðborgarsvæðinu teljist ekki vera mjög óvenjulegt, þ.e. fyrir utan hvassviðrið sem gekk yfir á miðvikudag sem var fremur haustlegt.

Sumargæði í Reykjavík

Fyrir áhugasama má benda á veðurblogg Trausta Jónssonar sem skrifar í dag um sumargæði í Reykjavík síðustu 90 árin. Samkvæmt hans aðferðarfræði eru sl. fjögur sumur, þ.e. 2009 til 2012, á lista yfir 10 bestu sumrin, en sumarið 2009 trónir þar á toppnum með 41 stig, skv. aðferð Trausta. Sumarið 1983 er hins vegar á botninum með núll stig, þ.e. versta sumar í Reykjavík á 90 ára tímabili.

Ef litið er sérstaklega á júní, þá náðu tveir júní-mánuðir toppskori, eða 16 stigum, í gæðum, eða júní 2008 og júní 2012. „Hvar 2013 endar vitum við ekki, en júní virðist það sem af er liggja undir meðalgæðum samkvæmt matsaðferð dagsins,“ skrifar Trausti.

Helgarveðrið

Helgarspá Veðurstofunnar er eftirfarandi:

Vestlæg átt 3-10, en heldur hvassara við suðurströndina. Víða skúrir. Hægari vindur og úrkomulítið í kvöld. Fremur hæg breytileg átt á morgun, skýjað að mestu og úrkomulítið en bjartviðri framan af degi suðaustanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast suðaustanlands.

Á sunnudag:
Fremur hæg norðvestlæg átt eða hafgola. Skýjað með köflum og skúrir, einkum síðdegis. Hiti 8 til 16 stig, svalast norðaustantil.

Á mánudag:
Norðan 5-13. Skúrir um allt land og hiti 5 til 14 stig, hlýjast sunnanlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert