Umtalsverður árangur hefur náðst í að lækka lykjakostnað sjúkratrygginga. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu sjúkratrygginga Íslands. Á síðasta ári var lyfjakostnaður sjúkratrygginga að undanskyldum sjúkrahúslyfjum 8,9 milljarðar árið 2012 og lækkaði hann um 421 milljón króna frá árinu áður, eða um 4,5%. Þessi lækkun á sér stað þrátt fyrir að á sama tíma hafi lyfjanotkun mæld í fjölda skilgreindra dagsskammta hækkað um 1%.
Í skýrslunni kemur fram að gengi krónunnar á milli áranna 2011 og 2012 hélst nánast óbreytt. Ástæðan fyrir lækkuninni er sögð vera aukin samkeppni á lyfjamarkaði, en verð á sumum lyfjum hefur lækkað með tilkomu nýrra samheitalyfja á markað. Lyfjakostnaður sjúkratrygginga Íslands síðastliðin tíu ár fór mest upp í 10,7 milljarða árið 2009, en hann var lægstur árið 2003, 5,9 milljarðar.