Rúmlega 4000 manns langtímaatvinnulausir

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar. SteinarH

Um hver mánaðarmót missa á bilinu 100-130 einstaklingar réttindi til atvinnuleysisbóta. Forstjóri Vinnumálastofnunar segir að þrátt fyrir minnkandi atvinnuleysi sé enn stór hópur sem hefur lengi verið án atvinnu. Rúmlega 4000 manns glíma við langtímaatvinnuleysi og þrjú þúsund manns hafa misst réttindi til atvinnuleysisbóta.

Í fyrra var réttur til atvinnuleysisbóta styttur í þrjú ár úr fjórum. Til að koma til móts við við þann hóp sem var að missa atvinnuleysisbótarétt sinn var verkefnið Liðstyrkur sett á fót en þar eru atvinnuleysisbætur greiddar með atvinnuleitanda til atvinnurekanda sem ræður hann í vinnu. „Við höfum náð að koma á milli 7-800 manns í vinnu með þessum stuðningi og enn aðrir fá vinnu án okkar hjálpar og því lenda ekki allir þeir sem missa bótarétt sinn á framfærslu sveitafélaga,“ segir Gissur Pétursson forstjóri Vinnumálastofnunnar.

14-1600 á framfæri sveitafélaga

Í athugun frá árinu 2012 kemur fram að 14-1600 manns eru á framfærslu sveitarfélaganna eftir að hafa misst atvinnuleysisbótarétt sinn. „Þó að heildaratvinnuleysi sé að minnka, þá er ekki allur vandinn úr sögunni. Nú erum við með á bilinu 1400-1500 manns úr þessum hópi sem við erum að þjónusta með ýmsum leiðum. Í heild eru því um þrjú þúsund manns sem eru búnir með öll sín réttindi, og vilja komast í vinnu en þurfa mikla aðstoð til þess,“ segir Gissur. Inni í þessari tölu eru þeir sem eru í vinnu fyrir tilstilli bótagreiðsla til atvinnurekenda. 

Að sögn Gissurar er von til þess að 60-70% fólks haldist í vinnu eftir að bótagreiðslum frá Vinnumálastofnun líkur en þær eru sex mánuðir. Verkefnið hófst 1. september árið 2012.

Rúmlega 4000 manns glíma við langtímaatvinnuleysi

Gissur segir að atvinnuleysi sé með minnsta móti það sem af er ári en skráð atvinnuleysi í maí var 4,3%. Álag á stofnuninni hafi því minnkað að sumu leyti. „En svo er talsvert stór hópur sem hefur verið lengi atvinnulaus. Við erum að kalla til samstarfs við hin ýmsu aðila sem geta komið til móts við þennan hóp. Bæði hvað varðar starfendurhæfingu og hvatningaraðgerðir,“ segir Gissur.

Samkvæmt alþjóðlegum skilgreiningum er langtímaatvinnuleysi sex mánuðir. Að sögn Gissurar eru 4212 manns sem glíma við langtíma atvinnuleysi á Íslandi. „Sem betur fer er að fækka aðeins í þessum hópi. Milli maí og apríl fækkaði í þessum hópi um 226 manns," segir Gissur.  

Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert