Á heimasíðu Strætó hefur verið sett upp yfirlitssíða á ensku yfir nokkra áfangastaði á landinu sem Strætó ekur á. Í fyrsta áfanga eru upplýsingar um 30 staði og munu fleiri staðir bætast við þegar líður á. Á síðunni eru ýmsar gagnlegar upplýsingar um hvern stað fyrir sig, ásamt upplýsingum hvaða leið ekur þangað, hvað ferðalagið tekur langan tíma og hvar hægt er að kaupa miða, segir í fréttatilkynningu.
Tilgangur síðunnar er að gera Strætó að ákjósanlegum ferðamáta fyrir erlenda ferðamenn, einnig mun hún auðvelda starfsfólki upplýsingamiðstöðva við að leiðbeina erlendum ferðamönnum hvernig á að komast á milli staða.
Þessa yfirlitssíðu er hægt að finna á enska hluta heimasíðunnar undir flipanum „Popular destinations“ á Strætó.is.