Utanvegaakstur við Kleifarvatn

Veiðimenn við Kleifarvatn urðu vitni að fjölmennum utanvegaakstri við vatnið síðastliðna helgi. Þetta segir Vilborg Reynisdóttir, formaður Stangveiðifélags Hafnarfjarðar, en bílunum var ekið um fjöru við veiðisvæði félagsins. Um fimmtán ljóslitir Land Cruiser jeppar keyrðu um fjöruna líkt og rallýkross keppni væri að ræða, segir Vilborg og ollu þeir nokkrum skemmdum á svæðinu.

Aðkoman ekki falleg

Bílarnir fimmtán keyrðu um fjöruna, upp á gras og ofan í vatnið þar sem félagið ræktar fisk. Þá fór hópurinn einnig að svæði við vatnið sem nefnist indíáninn, en það er veiðisvæði við Innri Stapa við Kleifarvatn. Vilborg fór og kannaði aðstæður þar í vikunni og segir aðkomuna ekki hafa verið fallega.

„Það er ótrúlegt að fólk láti svona,“ segir hún í samtali við mbl.is. „Þetta er ósnortin náttúra á verndarsvæði Reykjanesfólkvangs.“

Veiðimaður á staðnum segir hópinn hafa verið franskan og með í för hafi verið íslenskur fararstjóri. Nokkrir ferðamannanna stóðu hjá og horfðu á aksturinn á meðan hinir brunuðu um svæðið. Einn veiðimannanna gaf sig á tal við íslenskan mann sem virtist fara fyrir hópnum, en hann vildi ekki gefa upp fyrir hvaða ferðaþjónustufyrirtæki hann starfar. Vilborg birti myndir af náttúruspjöllunum á Facebook síðu sinni og vill hún hafa upp á fyrirtækinu sem ber ábyrgð á þessari ferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert