Útför Hemma: Ekkert stress, bless bless

Fjölmenni var viðstatt útför Hermanns Gunnarssonar sem fram fór í Hallgrímskirkju í dag en um 170 manns fylgdust með útförinni á skjá í Valsheimilinu á Hlíðarenda.

„Nú er ekki lengur á tali hjá vini okkar,“ sagði séra Pálmi Matthíasson sem jarðsöng. Hann sagði hinn ástsæla íþrótta- og fjölmiðlamann og skemmtikraft hafa haft þrjá menn að geyma: Hemma, hinn glaðværa Hemma Gunn sem þjóðin þekkti, og hinn heldur alvarlegri Hermann Gunnarsson.

Í Valsheimilinu, þar sem erfidrykkjan fer fram, hékk uppi íslenski fáninn með skuggamynd af Hemma og víðfrægri kveðju hans: „Veriði hress, ekkert stress, bless bless.“

Karlakórinn Fóstbræður söng við athöfnina, undir stjórn Árna Harðarsonar, en einsöngvarar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Björgvin Halldórsson, Kristján Jóhannsson, sem söng Ave Maria eftir Schubert, Egill Ólafsson, sem söng Ísland er land þitt, og Sigríður Thorlacius, sem söng Í bljúgri bæn.

Hemmi varð bráðkvaddur í Taílandi 4. júní síðastliðinn, 66 ára að aldri. Banamein hans var hjartaáfall.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert