Verja sumarfríinu á hálendinu

Fulltrúar frá björgunarsveitunum munu dvelja á hálendinu í allt sumar og verða til taks ef ferðafólk þarf á aðstoð að halda. Alls munu 30 hópar frá björgunarsveitunum skipta sumrinu á milli sín og verða um fjórir hópar staðsettir á svæðinu hverju sinni.

Fyrstu hóparnir fóru af stað nú síðdegis og Þórarinn Steingrímsson hjá björgunarsveitinni Lífsbjörg í Snæfellsbæ segir mikla tilhlökkun í hópnum en þau munu dvelja í níu daga í Nýjadal. Hann segir að allir þeir sem séu í Lífsbjörg séu í vinnu og því noti það sumarfríið sitt í þetta verkefni. „Þeir sem eru í björgunarsveit gefa sinn tíma og eru ekkert að velta fyrir sér þeim klukkutímum sem þeir verja í þetta. Í þessu tilviki er þetta bæði frí og vinna, því við erum einnig að kynnast landinu og horfa út fyrir þetta hefðbundna sem við gerum dags daglega,“ segir Þórarinn.

Tvö þúsund atvik síðasta sumar

Björgunarsveitirnar dvelja á hálendinu í átta vikur.  Á síðasta ári bárust tæplega tvö þúsund atvik inn á borð björgunarsveita á hálendinu á þessum tveimur mánuðum. Í fréttatilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að  allt eins  sé búist við því að atvikum fjölgi þetta sumarið enda líklegt að ferðamönnum fjölgi í sumar eins og reyndin er þetta árið. Útköllum björgunarsveita hefur fjölgað gríðarlega síðustu árin vegna aukins fjölda erlendra ferðamanna og aukinna ferðalaga Íslendinga innanlands.

Þórarinn á ekki von á því að mikið verði að gera hjá þeim fyrstu vikuna þar sem enn á eftir að opna hálendisveg í Nýjadal en unnið er að mokstri sem stendur. „Við munum svo reyna að vera á þeim svæðum þar sem fjöldinn er mestur til að vera sem næst ef eitthvað gerist,“ segir Þórarinn. 

2-300 kíló af búnaði

Hann segir að mikil gleði og tilhlökkun einkenni hópinn og að allir hafi undirbúið sig vel fyrir ferðina. Segir hann að búnaðurinn sem tekinn verður með sé á milli 2-300 kíló. „Við erum með hjartastuðtæki, súrefni, flotgalla, bátagalla, línur og fleira,“ segir Þórarinn og þá er óátalið sexhjól sem er hentugt til sjúkraflutninga á torfæru landi.

Hóparnir fóru í dag  á ÓB og Olís stöðvar um land allt til að afhenda ferðalöngum poka með fræðsluefni og glaðningi og hvetja til öruggra ferðalaga.

Þórarinn Steingrímsson
Þórarinn Steingrímsson Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert