Þrettán verkefni hlutu styrk úr Hverfissjóði Reykjavíkur en tilgangur sjóðsins er að styðja við verkefni sem stuðla að bættu mannlífi, eflingu félagsauðs, fegurri ásýnd borgarhverfa, auknu öryggi í hverfum borgarinnar og samstarfi íbúa, félagasamtaka eða fyrirtækja við borgarstofnanir. Fimm milljónir króna voru veittar að þessu sinni. „Við viljum efla frumkvæði íbúa í hverfum borgarinnar,“ sagði Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.
Alls fengu fjórar umsóknir 600.000 króna styrk. Íþróttafélagið Leiknir og leikskólinn Ösp, Myndlistarskóli Reykjavíkur og samstarfshópur í Norðurmýrinni. Leiknir fékk styrk til að koma á fót námsveri fyrir börn sem stunda íþróttir hjá félaginu og leikskólinn Ösp til að efla félagsauð hjá innflytjendum. Samstarfshópur í Norðurmýrinni fékk styrk til að halda Norðurmýrarhátíð 2013 og Myndlistarskóli Reykjavíkur til að halda myndlistarnámskeið fyrir unglinga í Breiðholti. Þá fékk kvennaklúbburinn Skapótekið 500.000 króna styrk til tækjakaupa og kaupa á kennsluefni.
Hollvinir Litla-Garðs og nágrennis fengu 310.000 kr. fyrir verkefnið Grænn og öruggur Haðarstígur. Foreldrafélag Háaleitisskóla fékk 300.000 til að halda Alþjóðahátíð Háaleitisskóla. Korpúlfar/félag eldri borgara í Grafarvogi 300.000 fyrir Fegrun Grafarvogs. Markaðsnefnd Íbúasamtaka Laugardals 300.000 til að halda Útimarkað Íbúasamtaka Laugardals 2013.
Íbúasamtökin Betra Breiðholt fengu 247.500 kr. fyrir verkefnið Hjólum saman á öllum aldri. Foreldrafélag Langholtsskóla 200.000 til að halda Umhverfisdag foreldrafélags Langholtsskóla og Björgunarsveitin Kjölur 50.000 kr fyrir Slysavarnir vegna sjósunds við Kjalarnes. Alls bárust 62 umsóknir og fór úthlutun fram í dag.
Verkefnin eru af margvíslegum toga en eiga með markvissum hætti að efla og styðja tengsl milli aldurshópa, íþróttaiðkun, félagsauð minnihlutahópa, sköpunargáfu barna, félagslega þátttöku og mannlíf í hverfum borgarinnar.
Hverfissjóður Reykjavíkurborgar byggir á samfélagssjóði SPRON sem var færður borginni til varðveislu og úthlutunar. Tilgangur sjóðsins er að gera íbúum Reykjavíkurborgar kleift að hafa frumkvæði að hverfis-tengdum verkefnum. Úthlutað verður aftur úr sjóðnum vorið 2014.
Umhverfis- og skipulagssvið hefur umsjón með sjóðnum og stjórn hans sitja samkvæmt skipun borgarstjóra: Ólöf Örvarsdóttir, Óskar Dýrmundur Ólafsson og Jón Halldór Jónasson. Hreinn Ólafsson er stjórninni til aðstoðar. Verkefnastjóri sjóðsins er Þór Steinarsson.