Gagnrýna niðurstöðu Hæstaréttar

mbl.is/Brynjar Gauti

„Erfitt er að trúa því að Hæstiréttur telji trúnaðarskylduna svo léttvæga sem þessi dómsniðurstaða bendir til,“ segir Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands, en félagið sendi nýverið frá sér ályktun þar sem það lýsti sig ósammála niðurstöðu Hæstaréttar í máli frá 4. júní.

Í málinu féllst rétturinn á að ákæruvaldinu væri heimilt að leggja fram í dómsmáli endurrit af hleruðum símtölum sakbornings við tvo lögmenn á grundvelli þess að hvorugur lögmaðurinn hefði verið verjandi ákærða í skilningi sakamálalaga. Í ályktuninni segir að vernd trúnaðarsambands lögmanns og skjólstæðings sé grundvallarregla og njóti sem slík ríkrar verndar í sérhverju réttarríki.

„Það ber fyrst og fremst að skoða þessa ályktun sem brýningu frá stjórn Lögmannafélagsins til dómstóla um að íhuga þessi mál vandlega,“ segir Jónas sem telur lögmenn hafa verulegar áhyggjur af því að trúnaðarsamband lögmanna, sem ekki hafa verið skipaðir verjendur, við umbjóðendur sína sé ekki nægilega virt í réttarframkvæmd. „Það er sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af því nú um stundir að veittur verði afsláttur af þessari grundvallarreglu sem er einn af hornsteinum réttlátrar málsmeðferðar.“

Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Jónas trúnaðarskylduna ekki einungis eiga við í sakamálum, hún liggi einnig til grundvallar við rekstur einkamála. Óttist umbjóðendur lögmanna að trúnaðarskyldan haldist ekki í reynd væri hætta á að málsaðilar tefli ekki fram ítrustu sókn eða vörn. 

Jónas segist vona að niðurstaðan í dómsmálinu hafi verið mistök sem verði leiðrétt við fyrsta tækifæri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert