Hverfið standi undir þjónustu

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl.is

Sú stefna meirihlutans í Reykjavík að draga úr umfangi byggðar í Úlfarsárdal og Grafarholti er röng. Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.

Eins og sagði frá í Morgunblaðinu í gær er uppbygging í Úlfarsárdal nú að komast á skrið aftur, en með öðru sniði en áformað var. Bendir Kjartan á að hverfið hafi verið skipulagt og fyrstu lóðirnar í dalnum seldar í tíð Reykjavíkurlistans. Hafi verið gert ráð fyrir hverfi 20 til 30 þúsund íbúa og á þeim forsendum hafi lóðir í hverfinu farið á markað.

„Á síðasta kjörtímabili var síðan ákveðið að draga úr byggðinni og var það gert eftir samráð og í góðri sátt við íbúa. Var þá gert ráð fyrir um 15-18 þúsund manna byggð í þessum hverfum þegar þau væru fullbyggð. Ég tel að standa eigi við þetta samkomulag og miða við að í þessum hverfum verði nægilega margir íbúar til að hægt verði að standa undir ákveðinni þjónustu, t.d. rekstri hverfisverslana og öflugs íþróttafélags. Íbúarnir leggja mikla áherslu á að staðið verði við samkomulagið enda gerðu þeir ákveðnar væntingar um þjónustu þegar þeir keyptu dýrustu íbúðarlóðir í Reykjavík.“

Líklegt til vinsælda

Úlfarsárdalur er hverfi mikilla möguleika og líklegt til vinsælda, segir Kjartan. Erfiðleikar undanfarinna ára hafa stuðlað að samheldni íbúa. „Á fundum mínum með þeim hefur t.d. komið fram mikil ánægja með skóla- og íþróttastarf í hverfinu. Það er greinilegt að tilraun með samrekstur leikskóla, grunnskóla og frístundaheimilis í Dalskóla hefur tekist vel,“ segir Kjartan. Hann gagnrýnir harðlega að meirihlutinn í borgarstjórn hafi ákveðið að breyta skipulagi Úlfarárdals án samráðs við íbúa. ,,Það er mjög skiljanlegt að Úlfdælingar skuli mótmæla þeim fyrirætlunum borgarstjórnarmeirihlutans að einungis verði þrjú þúsund manna byggð í Úlfarsárdal í stað tíu þúsund,“ segir Kjartan.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er talsverð hreyfing nú komin á uppbyggingu í Úlfarsárdal. Þannig hafa bankar og fleiri selt eignir sem þeir leystu til sín eftir hrunið. Er því víða unnið að frágangi á hálfbyggðum húsum. Þá hugsa fjárfestar sér til hreyfings með því að reisa fjölbýlishús og koma íbúðum í útleigu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert