Minni aðsókn í nám áhyggjuefni

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson. mbl.is

„Það er auðvitað áhyggjuefni ef aðsókn í kennaranám dregst saman og við verðum augljóslega að setjast yfir þetta, greina vandann og grípa til viðeigandi aðgerða,“ segir Illugi Gunarsson menntamálaráðherra, um þær fréttir að aðsókn í kennaranám hafi dregist mikið saman á síðustu árum. Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Illugi að hann hafi ekki enn heyrt að skortur sé á kennurum í grunnskólum en hann geri sér grein fyrir því að þetta sé úrlausnarefni sem brýnt sé að taka á.

Námið lengt með lagasetningu

Ný lög um kennaranám tóku gildi árið 2008, en í þeim felst meðal annars að skyldunám kennara er lengt úr þremur árum í fimm. Frá árinu 2011 hefur enginn fengið kennararéttindi nema að hafa lokið fimm ára námi og hefur umsóknum til kennaranáms farið fækkandi með ári hverju síðan breytingarnar voru gerðar. „Ég veit ekki til þess að gerð hafi verið rannsókn á ástæðum þessarar þróunar en ég tel næsta víst að þessir þættir hafi báðir áhrif á aðsókn í kennaramenntun. En það er ekki ólíklegt að fleiri þættir spili þarna inn í, s.s. aukið framboð á alls kyns áhugaverðu námi á háskólastigi,“ segir Illugi, en framboð á námi sem snýr að vinnu með börnum og unglingum hefur aukist mikið undanfarin ár. Illugi bætir við: „Því hefur oft verið haldið fram að í gegnum tíðina hafi mun fleiri sótt í kennaramenntun en þeir sem hafa ákveðið að leggja fyrir sig kennslu en þetta getur hafa breyst með auknu framboði af öðru áhugaverðu námi eins og ég sagði.“

Spáir ekki styttingu námsins

Aðspurður hvort það komi til greina að stytta námið aftur í þrjú ár segir Illugi að bíða verði með allar slíkar hugleiðingar.

„Það er alls ekki óeðlilegt að auknar kröfur dragi úr aðsókn í kennaranám en ég á alveg eins von á því að aðsókn að kennaranámi eigi eftir að aukast. Mér skilst til dæmis að einhver fjölgun sé nú í umsóknum um leikskólakennaranám og það er ekki ólíklegt að slíkt hið sama gerist í grunnskólanum,“ segir Illugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert