Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International bauð í dag gestum og gangandi á Austurvelli að kynnast nokkrum þeirra pyntingaraðferða sem beitt hefur verið víðs vegar um heiminn af eigin raun, án þess að þeim yrði meint af.
Var þetta gert í tilefni af alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna til stuðnings fórnarlömbum pyntinga. Samkvæmt upplýsingum Amnesty hafa 150 ríki orðið uppvís að pyntingum og ómannúðlegri meðferð og krefjast samtökin þess að öll ríki heims virði hið algjöra bann við pyntingum, segir í fréttatilkynningu.
Í dag eru 26 ár liðin frá því að Samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu gekk í gildi, en Amnesty International barðist fyrir gerð hans í áraraðir.