Alþingi fær rannsóknarskýrslu um Íbúðalánasjóð (ÍLS) í hendurnar á þriðjudag, að sögn Einars K. Guðfinnssonar, forseta Alþingis. Hann gerði grein fyrir þessu á fundi þingflokksformanna og formanna stjórnmálaflokkanna í gær.
Umræður um skýrsluna fara fram á þinginu strax daginn eftir, en rannsóknarnefndin mun kynna efni skýrslunnar á þriðjudag. Í nefndinni sitja Sigurður Hallur Stefánsson, fv. héraðsdómari, Kirstín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við Háskólann á Akureyri.