„Gærdagurinn var alveg stórkostlegur,“ segir Kristín Sigríður Kristjánsdóttir, verkefnastjóri Humarhátíðarinnar á Höfn sem haldin var þessa helgi. „Þetta klárast í dag með frjálsíþróttamóti sem ungmennafélagið Sindri heldur.“
Sigríður segist búast við góðri mætingu. „Svo verður unglingalandsmótið hjá okkur um verslunarmannahelgina og við höfum nýtt okkur margt af því sem við höfum verið að gera fyrir þetta mót í undirbúning fyrir landsmótið.“
Kristín Sigríður segir hátíðargesti hafa verið mjög heppna með veður. „Nú er farið að blása hjá okkur, það er hlýtt en engin sól. Í gær og í fyrradag var veðrið alveg ótrúlegt. Bærinn er troðfullur af fólki, umferðin er svakaleg en allt hefur gengið slysalaust fyrir sig.“
„Þetta er hátíð sem sameinar fólk. Í gær var boðið upp á humarsúpu í heimahúsum og fólk fór ekki í sitt hverfi heldur heimsótti fólk í öðrum hverfum,“ segir Kristín Sigríður og bætir við að bæjarhátíð sem þessi sé því mikilvægur liður í að sameina það fólk sem býr á svæðinu.
„Við erum ekki á kortinu - við eigum hvorki heima fyrir sunnan né austan heldur erum við dálítið týnd.“
Spurð hvort hátíðargestir séu eingöngu úr bænum segir Kristín Sigríður svo ekki vera. „Það var talsvert af utanbæjarfólki sem mætti og mjög margir brottfluttir. Ég er að vestan og þar koma brottfluttir í heimabyggðina á sjómannadaginn. Þetta er svona svipað.“
„Hér eru margir útlendingar, sem er tilfallandi, þeir voru ekkert að koma á humarhátíð heldur bara að skoða jöklana. Svo störðu þeir bara þegar þeir sáu allar skreytingarnar í bænum og spurðu: „Af hverju er þetta svona?“ „Hvað er að?“ - enda allt appelsínugult í bænum.“