Ekki ljóst hversu margar eru á götunum

Rafmagnsvespur eru vinsæl farartæki. Myndin er úr safni.
Rafmagnsvespur eru vinsæl farartæki. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rafmagnsvespur eru uppseldar í búðum en mikil eftirspurn hefur verið eftir þeim undanfarið. Dæmi eru um að fólk hafi skráð sig á biðlista. Þær verða fáanlegar eftir nokkrar vikur þar sem stór sending er væntanleg til landsins. Ekki fékkst uppgefið hjá  innflytjendum hversu margar rafmagnsvespur hefðu selst síðustu ár.

Rafmagnsvespur flokkast undir vél- eða rafknúin hjól og tilheyra því sama flokki og reiðhjól með rafmagnsmótor. Ekki er því unnt að greina hversu margar rafmagnsvespur eru á götunum, nema fá þær upplýsingar hjá birgjum. Vél- eða rafknúin hjól flokkast sem ein tegund reiðhjóla og gilda um þau flestar sömu reglur og reiðhjól. Þær komast upp í 25 km hraða og má eingöngu nota þau á göngustígum. 

„Það eru nokkrir á biðlista hjá okkur en við fáum þær vonandi í lok mánaðarins. Það kom kippur í söluna eftir að í ljós kom að við þurftum ekki að borga Icesave. Betra efnahagsástand og aukinn kaupmáttur spilaði þar inn í,“ segir Guðmundur Davíð Árnþórsson, sölumaður í Elko. Við kaup á rafmagnsvespum eru þær prófaðar og kannað hvort allt virki ekki sem skyldi eins og bremsur og annar búnaður. Hins vegar fer sölumaður ekki yfir almenn atriði er varða notkun á t.d. hjálmi og öðrum búnaði sem æskilegt er að nota. 

 „Salan er svipuð og í fyrra. Það er ekki mikið til af þeim í augnablikinu en verður fljótlega meira til,“ segir Kolbeinn Pálsson, sölumaður hjá Suzuki bílum hf. Öll flóran kaupir rafmagnsvespur og segir hann að fólk spái mikið í hvernig hægt sé að finna leiðir til að spara í heimilisrekstrinum og þá sé þetta kjörin leið. Meðalverð á rafmagnsvespu er um 150 þúsund krónur. 

„Mikil vigt í þeim og alltaf hætta á að fólk geti slasast“

„Við förum alltaf yfir ákveðin öryggisatriðin þegar við afhendum rafmagnsvespur og höfum sama háttinn á og þegar við seljum reiðhjól. Það er mikil vigt í þeim og alltaf hætta á að fólk geti slasast og því leggjum við mikið upp úr hjálmanotkun,“ segir Þór Ragnarsson, sölumaður ferðatækja hjá Ellingsen, og bætir við að mikil eftirspurn hafi verið eftir rafmagnsvespum en þær seldust þar upp fyrir tæpum tveimur mánuðum. 

„Salan gengur vel. Þetta er vinsæl vara, ódýr og praktísk,“ segir Guðmundur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hátækni sem flytur inn og selur rafmagnsvespur. Stór sending af rafmagnsvespum er væntanleg í vikunni.  

Frétt mbl.is: Rafmangshjólin umdeild á stígunum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert