„Það gengur allt mjög vel,“ segir Gunnlaugur F. Gunnlaugsson, stöðvarstjóri í Hvalstöðinni í Hvalfirði, en þegar mbl.is náði tali af honum var búið að landa tveimur hvölum í morgun.
Aðspurður segir hann búið að veiða alls 20 langreyðar frá því að hvalveiðivertíðin hófst.
Í Hvalstöðinni er unnið nótt og dag en alls vinna þar um 90 manns á átta stunda vöktum við hvalskurðinn. Hópurinn samanstendur af skólafólki og reyndum hvalskurðarmönnum sem kallaðir eru til þegar vertíð hefst.
„Það er unnið allan sólarhringinn, alveg stöðugt. Menn vinna í átta tíma og sofa í átta,“ segir Gunnlaugur og bendir á að seinast í morgun, um klukkan 11, hafi Hvalur 9 komið með tvo hvali að landi.
„Fyrri hvalurinn var 61 eða 62 fet en hinn er talsvert mikið stærri,“ segir Gunnlaugur en ekki er búið að mæla það dýr enn. Það stendur þó til að hífa hann og mæla á næstu 30 mínútum.
Hvalur 8 var á veiðum í gær og kom hann með einn hval að landi í gærkvöldi.
Aðspurður segir Gunnlaugur Hval 9 vera nú á leið til hafnar í Reykjavík til þess að taka olíu en Hvalur 8 er úti á miðum. „Báturinn sem er úti núna hefur sjálfsagt verið að skjóta því hann ansaði ekki áðan,“ segir Gunnlaugur og bætir við að mórallinn um borð í hvalveiðiskipunum sé mjög góður.