Jón Gnarr „gaf saman“ brúðhjón

Frá athöfninni í gær.
Frá athöfninni í gær. Símamynd

Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur gaf í gærkvöldi saman brúðhjón. Hin nýbökuðu hjón eru Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttamaður á RÚV og Sigríður Þóra Þórðardóttir. Boðið hafði verið til fertugsafmælis Hans Steinars sem svo breyttist í brúðkaupsveislu.

Hans Steinar segir að búið hafi verið að ganga frá öllum lögformlegum skilyrðum hjónavígslu hjá sýslumanni áður en til „hjónavígslunnar“ kom, en hún hafi verið hugsuð sem skemmtun.

Hans Steinar hélt upp á fertugsafmæli sitt í Skemmtigarðinum í Gufunesi í gær. Þegar leið á veisluna voru allir gestirnir beðnir að koma að víkingaskipinu Gnarr sem þar er í garðinum. Í stefni stóð sjálfur borgarstjórinn, Jón Gnarr, og flutti að sögn eins veislugestsins mjög svo óhefðbundna ræðu áður en hann gaf brúðhjónin saman.

Tvíhöfði, Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, skemmtu í afmælinu fyrr um kvöldið en þeir hafa lengi þekkt Hansa. Þar fluttu þeir m.a. mjög svo hjartnæma ræðu og gáfu svo afmælisbarninu 400 krónur hvor, í klinki, 10 krónur fyrir hvert ár sem hann hefði lifað. Þeir báðu hann vinsamlega að fara vel með peningana.

Jón sagði þetta í fyrsta sinn sem hann gæfi saman brúðhjón.

Frétt mbl.is: Athöfnin snerist um skemmtun

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert