„Ég var lengi á sjó og tók það vinnusiðferði með mér sem ég hafði lært þar; að halda áfram að vinna og vinna þar til verkefninu lyki. Þetta er ekki flókið,“ segir Þorvaldur Tolli Ásgeirsson, spurður um lykilinn að námsárangri sínum. Hann fékk verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur á BS-prófi í orkutæknifræði frá Keili nýverið. Þorvaldur slasaðist alvarlega við sjómennsku árið 2006. Hann hlaut slæma hálsáverka og einnig blæddi inn á heilann. Í kjölfarið þurfti hann á mikilli endurhæfingu að halda.
„Það kom mér á óvart að námið gekk vel því ég hafði ekki mikla trú á námshæfileikum mínum. Ég féll í öllum greinum nema ensku í samræmdu prófunum á sínum tíma,“ segir Tolli eins og hann er oftast kallaður. „Ég hafði hvorki áhuga né metnað þegar ég var í grunnskóla.“
Hann reyndi að taka upp fögin sem hann féll í í gunnskóla en hætti fljótlega. Úr varð að hann fór á sjóinn með föður sínum í Vestmannaeyjum þá 17 ára að aldri. Hann settist aftur á skólabekk eftir að hafa starfað í tæp tuttugu ár á sjónum. Það kom þó ekki til af góðu því hann slasaðist árið 2006 og var fluttur með þyrlu til höfuðborgarinnar. Hann hlaut slæma hálsáverka og blæddi einnig inn á heilann þegar hann féll niður tæpa tvo metra.
„Mér var bara sparkað út í lífið og þurfti að takast á við nýja hluti.“ Eftir slysið þurfti hann á mikilli endurhæfingu að halda. Hann fór á Reykjalund og eftir það lá leiðin í Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu. Þar opnaði hann skólabækurnar að nýju og hefur ekki lokað þeim síðan.
„Þegar maður fór í þetta eins og hverja aðra vinnu þá var þetta ekkert mál,“ segir Tolli og bætir við að halda sig við efnið, gera það sem beðið er um og skila á réttum tíma eigi stóran þátt í árangrinum. Fátt fer meira fyrir brjóstið á honum en slugs. „Það er algjört forgangsatriði að þegar ég fæ vinnu upp í hendurnar þá klára ég hana.“
Í Hringsjá komst hann að því að námið átti vel við hann. Starfsfólkið hvatti hann áfram til náms. „Þau höfðu miklu trú á mér og aðstoðuðu mig við að komast inn í Keili.“
Tolli fann fljótt að raungreinar áttu mun betur við hann en hugvísindanám. Nám í orkutæknifræði í Keili höfðaði strax til hans. Hann fór í það nám eftir að hann lauk háskólabrú Keilis og hlut verðlaun fyrir vikið. Áfram hélt hann að læra af kappi og sú vinna skilaði sér í viðurkenningu fyrir námsárangur í BS-prófi. Nú er hann á leið út til Danmerkur í meistaranám í olíuverkfræði við DTU, danska tækniháskólann.
„Mikið hefur verið rætt um skort á tæknimenntuðu fólki og tæknifræðingum í samfélaginu. Þegar ég sótti um vinnu fann ég ekki fyrir þessum umrædda skorti,“ segir Tolli og bindur miklar vonir við námið í Danmörku.
„Mér leið alltaf vel á sjónum. Fyrst var það stór biti að kyngja að ég gæti ekki unnið við sjómennsku því það var það eina sem ég þekkti.“ Hann kunni illa við það þegar sjúkraþjálfarar sögðu honum að hann gæti hugsanlega ekki starfað við sjómennsku. Eftir að hafa farið einn þægilegan túr á sjónum varð honum það ljóst að hann gat ekki starfað við þessa líkamlegu vinnu. Verkir í hálsi og herðum ágerðust og hausverkurinn gerði vart við sig. „Þegar ég upplifði það var ekki eins erfitt að sætta sig við það.“
Hann segir að dagamunur sé á verkjunum. Stundum komi dagar sem eru mjög erfiðir en hann heldur niðri verkjunum með því að stunda heita potta og gufu. Í dag hafi hann lært að vera óhræddur við að biðja um hjálp ef það er eitthvað sem hann getur ekki.
Tolli er ákaflega þakklátur fyrir alla þá sem hafa aðstoðað hann, m.a. Sjómannafélag Vestmannaeyja, Ísfélag Vestmannaeyja og sérstaklega er hann þakklátur fyrir stuðning Óskars heitins á Frá og fjölskyldu hans. Þá hefur stafsfólkið í Hringsjá, Reykjalundi og Keili hvatt hann áfram og stutt vel við bakið á honum.
„Mín reynsla af Tryggingastofnun og Lífeyrissjóði Vestmannaeyja er góð. Þar hefur mér verið bent á alla möguleika í styrkjum og leiðum sem auðvelduðu mér að taka þátt í lífinu og stunda námið,“ segir Tolli og bætir við að oftast komi hin hliðin frekar fram.