Freyja flutti jómfrúræðu sína

Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, flutti jómfrúræðu sína á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Beindi hún fyrirspurn til Illuga Gunnarssonar, menntamálaráðherra, um málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Hún vakti athygli á því að breytingar á reglum LÍN um námsframvindu, úr 60% námi að lágmarki í 70%, kæmi sér illa fyrir til að mynda hagsmuni fatlaðra námsmanna og foreldra landveikra barna. Spurði hún hvernig ætti að tryggja að slíkum hópum yrði ekki mismunað með nýjum reglum.

Illugi lagði áherslu á að verið væri að breyta reglunum um námsframvindu til samræmis við það sem áður var og þess sem gerðist á hinum Norðurlöndunum. Þá fælist í þessum breytingum hækkun námslána frá því sem áður hafi verið. Ráðherrann gat þess ennfremur að hann ætti fund með forystumönnum námsmannahreyfinganna síðar í dag um breytingarnar á reglum LÍN þar sem málefni meðal annars fatlaðra og langveikra barna yrðu þar til umræðu.

Reglunum væntanlega breytt af tilefni

Freyja fagnaði því að þessi mál yrðu rætt á fundinum og sagðist binda vonir við það. Hún sagðist hins vegar ekki telja það rök í sjálfu sér fyrir breyttum reglum að verið væri að breyta þeim til samræmis við það sem áður hafi gilt. Þeim hefði væntanlega verið breytt vegna þess að þær hafi ekki verið nógu góðar. Að sama skapi væri staðan önnur á hinum Norðurlöndunum þar sem frekar væri um að ræða námsstyrki en námslán auk þess sem stuðningur við hópa sem stæðu höllum fæti væri mun meiri.

Illugi sagði rangt að ekki væri um að ræða neina styrki í námslánakerfinu hér á landi og því væri það ekki samanburðarhæft við það sem gerðist á hinum Norðurlöndunum enda fælist töluvert mikill styrkur í vaxtaniðurgreiðslunni á námslánum að ekki mætti horfa framhjá því. Hann teldi um skynsamlega ákvörðun að hækka kröfuna um námsframvindu í 70% enda þýddi 60% þýddi að nóg væri að vera á rétt rúmlega hálfum hraða.

Freyja Haraldsóttir flytur jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag.
Freyja Haraldsóttir flytur jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag. Skjáskot af Althingi.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka