Hafa rætt við Bandaríkin um njósnamál

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ekki ætti að koma á óvart að öflugustu og stærstu ríki heimsins stundi njósnastarfsemi sagði Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í umræðum á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Árni vildi vita hvort íslensk stjórnvöld ætluðu að fara fram á upplýsingar frá Bandaríkjamönnum um það hvort stunduð hafi verið njósnastarfsemi gagnvart Íslendingum með sama hætti og þeir hafi gert víða annars staðar.

Gunnar sagði alvarlegt ef rétt reyndist að stjórnvöld, í hvaða ríkjum sem það væri, væru að njósna um sína helstu bandamenn. Það hlyti að kalla í það minnsta á skýringar og að upplýst væri hvort það sé rétt. Ekki væri alveg ljóst að hans viti hvað væri rétt í fréttaflutningi af málinu en einhvers slík njósnastarfsemi virtist hafa átt sér stað gagnvart bandamönnum Bandaríkjamanna í Evrópu og af því hefðu íslensk stjórnvöld vitanlega áhyggjur. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði óskað eftir skýringum frá bandarískum stjórnvöldum og íslensk stjórnvöld fylgdust grannt með því.

Bandaríkjamanna að svara fyrir meintar njósnir

Hins vegar hefðu íslensk stjórnvöld komið á framfæri athugasemdum við Bandaríkjamenn í gegnum bandaríska sendiráðið í Reykjavík og sendiráð Íslands í Washington. Þar hafi þeirri skoðun verið komið á framfæri það það hlyti að minnsta kosti að vera óheppilegt og jafnvel óhugsandi að Bandaríkjamenn hafi stundað slíka njósnastarfsemi hér á landi. Það væri þeirra að svara því hvort slíkt hafi átt sér stað. Hins vegar væri barnaskapur að halda að ekki hafi verið njósnað um okkur ef það hafi verið gert gagnvart öðrum Evrópuríkjum.

Árni sagði mikilvægt að ekki væri töluð nein tæpitunga í þessum efnum og Bandaríkjamenn væru krafnir skýrra svara um það hvort slík njósnastarfsemi hafi verið stunduð hér á landi. Hvatti hann utanríkisráðherra til þess að gera það. Spurði hann ennfremur ráðherrann að því hvaða áhrif hann teldi að slíkar njósnir kynnu að hafa á samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

Gunnar Bragi sagði ástæðu til að fylgjast áfram með þessu máli og ef þörf teldist á frekari upplýsingum vegna þess yrði leitað eftir þeim. Hann sagðist ekki ætla að halda því fram að slíkt gæti haft alvarlegar afleiðingar á samskipti ríkjanna en það væri hins vegar vitanlega mjög slæmt ef við teldum að vinaþjóðir okkar væru að njósna um okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert