„Hafa skapað sér sjálfskaparvíti“

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. Ómar Óskarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa á fundi með oddvitum stjórnarandstöðuflokkanna á þingi óskað eftir því að þingsetningu í haust verði frestað um þrár vikur.

Ástæðan er sögð vera sú að ekki er talið líklegt að gerð fjárlaga og tekjufrumvarpa klárist fyrir tilsettan tíma. Kom þetta fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Ef rétt er þá líst mér ákaflega illa á það. Lögin segja alveg skýrt að það á að leggja fram fjárlagafrumvarp og tekjufrumvarp þegar þing kemur saman 10. september,“ segir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is og bendir á að núverandi stjórnarflokkar hafi á sínum tíma barist hart fyrir því að tekjufrumvörp yrðu lögð snemma fram á síðasta kjörtímabili. Segir hann rökin fyrir því hafa verið sterk: þingið þyrfti að hafa meira ráðrúm og tíma til þess að ræða þau.

„Ég sé ekki að það hafi að nokkru leyti breyst og er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé mjög erfitt að fallast á svona. Ríkisstjórnin mun í sumarlok hafa haft ærinn tíma til þess að koma saman fjárlögum,“ segir Össur og bætir við að fjárlagaramminn hafi verið til.

„Þeir hafa skapað sér sjálfskaparvíti með frumvörpum sem skerða tekjur ríkisins allverulega,“ segir Össur og bendir á veiðileyfagjaldið í því samhengi.

Aðspurður hvenær sumarþingi kann að ljúka segir Össur ýmsa óska eftir að því sloti í þessari viku. „En ég er nú ekki viss um að það takist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka