Ræddu í allt kvöld um veiðigjöld

Þingmenn hafa rætt lækkun veiðigjalda í allt kvöld.
Þingmenn hafa rætt lækkun veiðigjalda í allt kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn hafa rætt um frumvarp um lækkun veiðigjalds í allt kvöld. Enn eru nokkrir þingmenn á mælendaskrá og óljóst er hvenær annarri umræðu um frumvarpið lýkur.

 Í frumvarpinu er lagt til að sérstök veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2013/2014 verði eingöngu ákvörðuð með krónutölu. Samkvæmt upplýsingum um áætlað aflamark frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er áætlað að þær breytingar sem lagðar eru til á veiðigjaldinu muni hafa í för með sér að heildartekjur ríkissjóðs af veiðigjöldunum verði 9,8 milljarðar kr. á því fiskveiðiári að teknu tilliti til afsláttarreglna. Núverandi lög gera ráð fyrir að veiðigjöld skili 14 millörðum á fiskveiðiárinu 2013-2014.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í kvöld gagnrýnt lækkun veiðigjalds. Ögmundur Jónasson sagði að frumvarpið sýndi forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Hann taldi óskynsamlegt að lækka þennan tekjustofn ríkissjóðs.

Þingmenn ríkisstjórnarinnar vörðu frumvarpið og bentu á að núverandi lög væru óframkvæmanleg. Gjaldið væri of hátt og kæmi með ósanngjörnum hætti niður á útgerðinni.

Bíða eftir að forsetinn komi heim

Smári McCarthy, Pírati, segir á Facebook-síðu sinni í kvöld, að nú sé málþóf gegn veiðigjaldinu í gangi á Alþingi. Markmiðið sé ekki að tefja störf þingsins, m.a. til að gefa forseta landsins tíma til að komast heim til Íslands til að sinna skyldu sinni.

Það virðist aldrei þessu vant vera leyndarmál í þágu þjóðaröryggis hvenær forsetinn kemur heim, og því gæti þetta staðið yfir frá nokkrum klukkutímum og upp í nokkrar vikur, eftir því hvar hann er og hversu erfitt er að rata um flugvellina erlendis,“ segir Smári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert