Geir Gunnar Geirsson eldri, bóndi á Vallá á Kjalarnesi, telur að auka megi umferðaröryggi á Kjalarnesi með gróðursetningu aspa.
„Þetta er einföld hugmynd en ávinningurinn getur verið mikill fyrir samfélagið,“ segir Geir. „Þegar maður keyrir hér um í illviðrum þá hugsar maður oft til þess hvað það væri gott að geta haft skjól af einhverju. Öspin er alveg tilvalin enda er hún sterk og þrífst vel hér. Gróðursetja mætti tíu til fimmtán metra breitt trjábelti sem myndi ná frá munna Hvalfjarðarganga og niður í Kollafjörð. Þannig mætti draga úr vindi og auka umferðaröryggi.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag tekur Ásgeir Harðarson, formaður Íbúasamtaka Kjalarness, vel í hugmynd Geirs.