Rannsókn á því þegar ökumaður var sagður hafa flautað á börn í útreiðatúr í Garðabæ í júní er lokið. Að sögn lögreglunnar bar málið ekki að með þeim hætti sem talið var í upphafi. Fimm ára drengur hlaut innvortis blæðingar þegar hann féll af baki.
Að sögn lögreglunnar var rætt við þá sem voru á staðnum og niðurstaða fengin í málið. „Hvað orsakaði að hestarnir fældust var ekki þetta flaut, það var nokkuð seinna sem það átti sér stað. Ökumaður var að flauta á annað ökutæki, flautið beindist ekki að þessum hópi og hestarnir fældust ekki við það,“ segir lögreglan. Ekki er vitað hvað fældi hestana.
Málið telst upplýst.
Drengurinn sem féll af baki hlaut áverka á lifur og innvortis blæðingar í kviðarholi. Hann dvaldi í sólarhring á gjörgæsludeild en var því næst fluttur á Barnaspítala Hringsins. Hann er nú kominn heim en verður að taka því rólega næstu vikurnar og vera undir stöðugu eftirliti foreldra sinna.
Frétt mbl.is: Á batavegi eftir fall af hestbaki