„Hin „ópólitíska“ Kolbrún Halldórsdóttir“

Brynjar Níelsson alþingismaður og Jóhanna María Sigmundsdóttir alþingismaður.
Brynjar Níelsson alþingismaður og Jóhanna María Sigmundsdóttir alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að ef það sé einhver sem hafi áhuga á að festa Ríkisútvarpið í pólitíska fjötra séu það núverandi stjórnarandstöðuflokkar.

Þetta segir Brynjar á blogg-síðu sinni. Hann segir að nokkrir stjórnarandstöðuþingmenn séu með böggum hildar yfir því að ríkisstjórnin „ætli að herða á pólitísku valdi yfir Ríkisútvarpinu“.

„Þetta er sama fólkið og tilnefndi í stjórn Ríkisútvarpsins fólk úr innsta kjarna sinna flokka þegar það fór með völdin. Á sama tíma tilnefndi Sjálfstæðisflokkurinn fagmann úr lista- og menningargeiranum sem enginn kannast við að hafa séð í Valhöll. [Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóra]

Svo var lögunum breytt í tíð síðustu stjórnar til að fá hina „ópólitísku“ Kolbrúnu Halldórsdóttur í stjórn Ríkisútvarpsins. Hafi einhver áhuga á að festa Ríkisútvarpið í pólitíska fjötra eru það núverandi stjórnarandstöðuflokkar.

Svo er það góð regla að þeir sem beri ábyrgð á ríkisstofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins skipi stjórnir þeirra. Það er þó í samræmi við stjórnarskrána,“ segir Brynjar í pistli sínum.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, gerði þennan pistil að umfjöllunarefni þegar 3. umræða um frumvarp menntamálaráðherra um RÚV hófst á Alþingi í kvöld. Hann sagði að Brynjar væri þarna að vega ómaklega að Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrrverandi alþingismanni og ráðherra VG. Kolbrún væri formaður Bandalags listamanna og hefði, áður en hún snéri sér að pólitík, átt langan feril sem listamaður.

Í umræðunni vakti Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, athygli á því að Brynjar hefði farið rangt með eitt atriði í pistli sínum. Kolbrún hefði ekki verið skipuð í stjórn RÚV heldur í valnefnd sem ætti að velja fulltrúa í stjórn.

Brynjar sagði í þingumræðunum að um einfaldan misskilning væri að ræða sem hann hefði leiðrétt. Aðalatriði málsins væri að sá sem sem bæri ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpið skipaði í stjórn, en ekki einhver samtök út í bæ hvort sem þau hétu Bandalag íslenskra listamanna, Íþróttasambandið, Landsbjörg eða eitthvað annað.

Brynjar sagði að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu skipað fyrrverandi stjórnmálamann í stjórnina, Margréti Frímannsdóttur og framkvæmdastjóra vinstriflokkanna á Norðurlöndunum og fyrrverandi ritstjóra málgagns VG, Björgu Evu Erlendsdóttur. Hann sagðist ekki gagnrýna þær fyrir að vera ófaglegar, en ópólitískar væru þær ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert