Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tilkynnti í Háskóla Íslands í dag að Ísland hafi fullgilt vopnaskiptasamning aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, fyrst ríkja. Tilkynningin var á gerð á opnum fundi með Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ, sem er staddur hér á landi í opinberri heimsókn í boði utanríkisráðherra.
Vopnaskiptasamningurinn er fyrsti alþjóðlegi samningurinn sinnar gerðar en hann var undirritaður í byrjun júní. Hann fjallar einkum um eftirlit með útflutningi hefðbundinna vopna með það að markmiði að auka alþjóðlegt öryggi og skapa vernd gegn mannréttindabrotum.
Ísland og hin Norðurlöndin voru á meðal þeirra ríkja sem beittu sér fyrir því að samningurinn yrði gerður en samningsgerðin naut einnig mikils stuðnings frjálsra félagasamtaka á borð við Rauða krossins og Amnesty International. Ríkjunum tókst m.a. að fá samþykkt ákvæði í samningstextann sem skyldar aðildarríki SÞ til að taka tillit til hættunnar á kynbundnu ofbeldi þegar ákvarðanir eru teknar um vopnaútflutning.
Utanríkisráðherra sagði þessa vinnu til marks um að ekki þurfi stórveldi til að ná árangri í baráttunni fyrir góðum málstað. Rödd Íslands og annarra sem berðust fyrir auknum mannréttindum hefði heyrst og hún skilað sér í þessum samningi.