Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 19 ára pilt í 16 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fimm líkamsárásir, þar þrjár stórfelldar, þjófnað, fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Honum var gert að greiða einu fórnarlamba sinna 400 þúsund krónur í miskabætur.
Líkamsárásirnar voru allar framdar í fyrra, þar af tvær á útihátíð á Gaddstaðaflötum við Hellu. Í öðru tilvikinu sló hann karlmann hnefahöggi í andlitið og sparkaði með hælnum í andlit hans, með þeim afleiðingum að maðurinn rotaðist og hlaut nefbrot og opið sár á vör og munnholi. Í hinu kastaði hann járnstól í karlmann sem fékk stólinn í höndina til að varna því að hann færi í andlit hans. Við það hlaut hann opið sár á fingri, skaða á nögl og fremsti hluti kjúku löngutangar vinstri handar fór af.
Þá sló hann 17 ára gamla stúlku hnefahöggi í vinstri augabrún með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á augnbrúninni, mar og bólgu. Sá árás var gerð á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur.
Einnig réðst hann að tveimur karlmönnum í miðborginni, slá annan nokkrum hnefahöggum í andlit og höfuð en sparkaði einnig í höfuð hins. Sá síðarnefndi rotaðist, hlaut skurð á neðri vör og munnholi, yfirborðáverka á höfði og mar á framhandlegg.
Pilturinn hefur áður gerst sekur um líkamsárásir. Þannig var ákæru frestað skilorðsbundið fyrir minni háttar líkamsárás árið 2010. Ári síðar var hann dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás og í janúar 2012 var hann dæmdur í 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 3 ár, fyrir gripdeild, skjalabrot, minni háttar líkamsárás og fleiri brot. Í desember var hann svo dæmdur í 7 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, og var skilorðsdómurinn frá 5. janúar sama ár dæmdur með.
Þrátt fyrir sakarferil piltsins og að hann hafi ítrekað gerst sekur um líkamsárásir og skilorðsrof segir Héraðsdómur Reykjavíkur: „Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 16 mánuði. Það ber að hafa í huga að ákærði var ekki orðinn 18 ára þegar hann framdi brotin sem hann var dæmdur fyrir með framangreindum dómum. Þrátt fyrir skilorðsrof þykja því vera skilyrði til að skilorðsbinda refsingu ákærða nú eins og í dómsorði greinir.“