Annarri umræðu um frumvarp um lækkun veiðigjalda lauk í kvöld. Umræður um frumvarpið hafa staðið í rúmlega 21 klukkustund, þ.e. fyrsta og önnur umræða. Fluttar hafa verið 54 þingræður og 145 athugasemdir.
Sá sem talað hefur lengst er Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvegaráðherra, en hann hefur flutt 6 ræður og 12 sinnum gert athugasemdir við ræður annarra þingmanna. Hann hefur talað samtals í 106 mínútur. Næstir honum koma Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, en hann talaði í 79 mínútur og Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttur, en þær hafa talað í 76 mínútur hvor.
Í lok umræðunnar kvartaði Árni Þór Sigurðsson undan því að Jón Gunnarsson endaði umræðuna með langri ræðu. Hann sagði að Píratar hefðu lýst því yfir að þeir ætluðu að stunda málþóf þar til tryggt væri að forsetinn væri kominn til landsins. Hann spurði hvort Jón ætlaði að stunda málþóf þar til forsetinn væri farinn úr landi aftur.
Markmið frumvarpsins um lækkun veiðigjalda er að afnema ákvæði í lögum um sérstakt veiðigjald. Ákvæði laganna um reiknaða rentu á þorskígildiskíló eftir veiðiflokkum og álagningu sérstaks veiðigjalds koma ekki til framkvæmda heldur verða gjöldin fastsett með líkum hætti og á yfirstandandi fiskveiðiári. Gert er ráð fyrir nýrri verðmætaviðmiðun, sérstökum þorskígildisstuðlum, til álagningar veiðigjalda í stað venjulegra þorskígilda. Þá er heimilt að seinka gjalddögum álagðra veiðigjalda í sérstökum tilvikum.
Gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins lækki með samþykkt frumvarpsins um 2,3 milljarða á þessu ári.