Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (SÞ), sagði á fundi utanríkismálanefndar í gær að Edward Snowden hefði misnotað aðgang sinn að rafrænum upplýsingum. Með uppljóstrun sinni hafi hann valdið vandræðum sem vegi þyngra en hagsmunir almennings af að fá vitneskju um víðtækar persónunjósnir Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna (NSA).
Breska blaðið Guardian segir frá þessu máli, en í fréttinni er vitnað til þess sem gerðist á fundi utanríkismálanefndar í gær.
Ban Ki-moon sagði að hans persónulega skoðun á uppljóstruninni væri að „Snowden-málið sé eitthvað sem ég álít að sé misnotkun,“ segir Ban Ki-moon.
Ummælin ollu undrun fundarmanna, en þau féllu einungis nokkrum klukkustundum eftir að Snowden sótti um hæli á Íslandi. Birgitta Jónsdóttir óskaði eftir skýringum aðalritarans á ummælunum, sem sagði að „aðgangur að upplýsingum gæti verið af hinu góða í stóra samhenginu, en stundum valdi það meiri vandræðum þegar einstaklingar misnoti þær“.
Birgitta lýsti yfir undrun sinni og áhyggjum af afstöðu aðalritarans. „Mér þykir rangt að aðalritari SÞ fordæmi Snowden persónulega frammi fyrir utanríkisnefnd Alþingis. Hann virtist engar áhyggjur hafa af innrásum stjórnvalda inn í einkalíf einstaklinga, heldur einungis af því hvernig uppljóstrarar misnoti kerfið,“ sagði Birgitta.