„Skýrslan sem er að koma fram er mikill áfellisdómur yfir stjórnmálunum, stjórnvöldum og eftirlitinu.“ Þetta segir Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra. Hún segir jafnframt að gagnrýni á Framsóknarflokkinn sem þar birtist sé hörð og flokksmenn verði að horfa til þess sem til þeirra sé beint.
Nú hefjist vinna við að endurskipuleggja regluverk á húsnæðislánamarkaði og óskað verði eftir tillögum í þeim efnum. Þær tillögur ættu að vera komnar fyrir áramót og þá verði hægt að hefja vinnu við að koma tillögunum í framkvæmd. Hún segir að Alþingi hafi óskað eftir skýrslunni og að mikilvægt sé að þingið vinni úr henni í sameiningu.