Stjórnendur Víðistaðaskóla slegnir

Víðistaðaskóli
Víðistaðaskóli Þorkell Þorkelsson

„Skólinn er auðvitað kominn í sumarfrí, en við stjórnendur skólans eru slegin yfir þessu og mjög áhyggjufullir,“ segir Sigurður Björgvinsson, skólastjóri Víðistaðaskóla. Á laugardaginn féll átta ára drengur átta metra niður af þaki skólans og er nú í öndunarvél.

„Það hefur gerst áður að krakkar hafi klifrað upp þakrennurnar og upp á þak. Það gerðist í fyrrasumar að ég varð var við það. Þá sendi ég póst á alla foreldra og bað þá um að ræða um hætturnar sem væru þessu samfara. Þá hætti þetta og ég átti ekki von á að þetta myndi gerast aftur,“ segir Sigurður. Samkvæmt því sem Sigurður kemst næst er drengurinn ekki nemandi við Víðistaðaskóla.

Hann segir enga foreldra barna í skólanum hafa sett sig í samband við sig eða aðra stjórnendur skólans. „Ég varð var við það þegar þetta „parkour-æði byrjað fyrir svona tveimur árum þá varð maður var við að krakkar væru klifrandi upp á þök hér um allan bæ. Ég veit ekki hvort þetta tengist þessu eitthvað,“ segir Sigurður. „Ég skil ekki hvað átta ára börnum finnst þau eiga erindi upp á þak. Maður bara skilur þetta ekki. Það hljóta allir að gera sér grein fyrir hvað þetta er hættulegt.“

Búið að grípa til ráðstafana

„Eins og ég sagði þá var farið þarna upp í fyrrasumar, þannig að það er spurning hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta,“ segir Sigurður, en á þeim tíma voru engir vinnupallar við skólann. „Þetta er eitthvað sem foreldrar verða að brýna fyrir börnunum sínum að gera ekki. Svo er spurning hvað framkvæmdasvið bæjarins, sem sér um húsið og ber ábyrgð á því, getur gert til að koma í veg fyrir að það sé hægt að klifra upp á þakið,“ segir Sigurður.

„Það er búið að grípa til ráðstafana til að slíkt geti ekki endurtekið sig, alla vega vegna framkvæmdanna. Það á við um umbúnað á vinnupöllum og afgirðingu svæðisins,“ segir Steinar Harðarson hjá Vinnueftirlitinu.

Steinar segir að málið sé nokkuð sérstakt þar sem ekki er um vinnuslys að ræða heldur verði þarna til aðstæður vegna framkvæmda við húsið. Rannsókn Vinnueftirlitsins tekur mið af því. Skrifað verður minnisblað og það afhent fjölskyldu drengsins og þeim sem bera ábyrgð á vinnustaðnum. Jafnframt fer fram sjálfstæð rannsókn lögreglu á slysinu.

„Okkar rannsókn miðast við að finna hættur á vinnustöðum og koma í veg fyrir frekari slys af sama toga með því að gefa fyrirmæli um úrbætur. Þegar vinnupallar eru reistir við hús er erfitt að koma í veg fyrir að farið sé upp á þá en til eru ákvæði sem við fylgjum til að draga úr aðgengi. Það er til dæmis að fjarlægja stiga upp á fyrstu hæð vinnupallanna og að svæðið sé afgirt.“

Hann áréttar að aðstæður hafi verið þannig á svæðinu að Vinnueftirlitið gaf fyrirmæli um að bætt yrði úr ákveðnum atriðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka