Beðið eftir fundarboði forseta

Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG.
Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég geri ráð fyrir því að menn hafi hug á því að leysa málið. Ég held að það hljóti að vera vilji fólks,“ segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is spurð um stöðuna varðandi möguleg þinglok í dag.

Samkomulag náðist í gær um að þinglok yrðu í dag en það komst hins vegar í uppnám í morgun vegna breytingatillögu frá stjórnarflokkunum við frumvarp um veiðigjöld sem gerir ráð fyrir að kolmunnaveiðar verði undanskildar slíku gjaldi. Stjórnarandstaðan telur breytingatillöguna ganga gegn samkomulaginu.

Gert var hlé á þingfundi vegna málsins fyrir hádegi sem stóð til klukkan 13.00. Forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, fundaði með þingflokksformönnum í hádeginu og lauk þeim fundi skömmu áður en þingfundur hófst að nýju án þess að niðurstaða lægi fyrir. Svandís segir að beðið sé eftir því að forseti boði til frekari funda.

„Forseti sagðist myndu boða okkur aftur til fundar þegar eitthvað nýtt lægi fyrir,“ segir Svandís. Spurð hvort hún telji vilja til þess að leysa málið segir hún að það hljóti að vera. Boltinn sé þannig hjá forseta og beðið sé þess að frekari fundir verði boðaðir.

„Við erum hér á síðasta degi þingsins miðað við það samkomulag sem var fyrir hendi og þarna er komið inn með algerlega ný efnisatriði sem setur það í uppnám. Ég held að það sé skilningur hjá öllum að þetta sé ekki heppilegt útspil inn í það viðkvæma jafnvægi. Ég allavega skynja það þannig að menn vilji leita leiða til að leysa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert