Engin umsókn um ríkisborgararétt hefur komið frá uppljóstraranum Edward Snowden. Þetta sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, við upphaf þingfundar í dag. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, spurði hana út í mál Snowdens.
Ögmundur vísaði í 71. grein stjórnarskrár Íslands en þar segir: „Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.“
Hann sagði engin slík lagaheimild sé fyrir hendi sem heimili bandarískum stjórnvöldum að hlera íslenska þegna. En það hafi þó verið gert. Og sá sem upplýst hafi Íslendinga um það sé Edward Snowden. Hann sé nú hundeltur og hafi hvergi höfði sínu að að halla.
Ögmundur sagðist hafa farið fram á að allsherjarnefnd þingsins tæki mál Snowdens fyrir og að Alþingi veitti honum landvistarleyfi og spurði Unni Brá, formann nefndarinnar, hvort mál Snowdens hafi verið rætt í nefndinni.
Unnur Brá sagði málið ekki hafa verið tekið upp í nefndinni. Tilteknar reglur séu um það hvernig Alþingi veiti ríkisborgararétt og sé það yfirleitt gert í desember og fyrir þinglok að vori.
Þá sagði hún umsókn um ríkisborgararétt ekki hafa borist frá Snowden. Þess vegna hafi nefndin ekki tekið málið upp og engin áform séu um það, nema annað komi til. Engin gögn séu um Snowden, engar upplýsingar og þar af leiðandi engar forsendur til að meta hvort Snowden uppfylli öll skilyrði. Ekki sé hægt að taka ákvarðanir án þess að hafa gögn og upplýsingar.
Ögmundur sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með svar Unnar Brá og benti henni á að heimspressan sé uppfull af gögnum um mál hans. Um sé að ræða stórpólitískt mál. Einstaklingur hafi upplýst heimsbyggðina um stórfelld mannréttindabrot. Hann sé að leita landvistar, hafi hvergi höfði að að halla og Alþingi ætti að hafa forgöngu um að bjóða honum landvist.
Unnur Brá sagði þá að endingu að það verði að halda lög og stjórnarskrá Íslands í heiðri. Fjöldi fólks hafi þegar óskað eftir að koma hingað til lands og lagt fram umsóknir um það. Ef hins vegar það á að taka ákveðna einstaklinga fram fyrir röðina þurfi að hafa um það gögn og upplýsingar.