„Ég vil byrja á að lýsa undrun minni á að ég sitji hér í nánast tómum þingsal þegar verið er að ræða um frumvörp til laga sem snerta lífsviðurværi stórs hóps á Íslandi. Það er kannski bara dálítill barnaskapur af mér að vera undrandi vegna þess að það lýsir því kannski mjög vel hver staða okkar sem tilheyrum þessum hópi sem hér er verið að ræða er.“
Þetta sagði Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um almannatryggingar og málefni aldraðra.
„Mér þykir mjög leitt að sjá hver fáir gefa sér tíma í það eða sýna því áhuga að taka þátt í þessari umræðu. En ég verð bara að lifa í þeirri von að það sitji allir límdir við skjáinn þarna frammi og komi svo hlaupandi hérna inn á eftir til þess að taka þátt í málefnalegri umræðu. En einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að það verði kannski heldur ekki alveg rétt hjá mér.“