Hverahlíð ber af sem lausn

Frá sameiginlegum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd um …
Frá sameiginlegum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd um Hellisheiðavirkjun. mbl.is/Eggert

Eina lausnin á gufuvanda Hellisheiðarvirkjunar sem fullnægir öllum þörfum er virkjun í Hverahlíð. Holur sem Orkuveitan á þar geta gefið 45 mW og gæfi það tíma til að leysa vanda virkjunarinnar. Þetta sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, á sameiginlegum fundi umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar Alþingis í morgun.

Eins og fram hefur komið stendur núverandi vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar ekki undir fullri framleiðslu til framtíðar. Bjarni segir að vandinn sé tvíþættur, annars vegar gufuvandi og hins vegar niðurdælingarvandi.

„Staðan er þannig í dag að við erum að vinna á litlu jarðhitasvæði og utan þess höfum við ekki fundið nýtanlega gufu. Það gengur nokkuð hratt á hana, um 2-3% á ári,“ sagði Bjarni við þingnefndirnar.

Hann sagði tvær leiðir í boði; annars vegar að afla gufu annars staðar frá eða bora meira á vinnslusvæðinu. Bjarni sagði seinni leiðina ekki fýsilega þar sem henni fylgdi áhætta. Algengt væri að borholur mistækjust og hver kostaði hálfan milljarð króna. Þá líkti hann því að bora fleiri holur á núverandi vinnslusvæði við það að stinga fleiri sogrörum í glas. Hægt væri að soga meira upp í einu en þá kláraðist fyrr úr glasinu.

Því taldi hann besta kostinn að virkja í Hverahlíð og leiða gufuna til virkjunarinnar. Holurnar sem þar eru þegar til staðar  hafa kostað 5-6 milljarða og eru ekki nýttar í dag. Þær gætu skilað 45 mW.

„Þessi kostur ber af en við erum að skoða margar aðrar lausnir. Við viljum geta viðhaldið vinnslugetunni og þar með tekjum. Það er gríðarlega mikilvægt. Þessi lausn myndi duga í 7-8 ár og það gefur okkur frest til að vinna að öðrum lausnum,“ sagði Bjarni.

Kæmi til þess að Hverahlíð yrði virkjuð yrðu hverfandi sjónræn umhverfisáhrif þar sem byggingarnar væru á virkjunarsvæði Hellisheiðarvirkjunar sjálfrar og aðeins þyrfti að byggja litið skiljuhús og lagnir frá Hverahlíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka