„Við erum að lenda í því að símasambandið, bæði heimasíma- og farsímasamband og líka netið, er að detta út, allt á sama tíma,“ segir Oddný S. Þórðardóttir, oddviti Árneshrepps. Símasamband í hreppnum fer frá símasendi á svæðinu yfir Húnaflóa og hefur sambandið verið stopult í töluverðan tíma.
„Það er algerlega ótækt að öll sveitin sé sambandslaus, þetta truflar allt lífið hérna. Fólk í búskap getur ekki haft samskipti sín á milli auk þess sem öll verslun og þjónusta stöðvast.“ Oddný segir óvenjumarga ferðamenn vera á svæðinu núna og búist við mörgum á næstu dögum. „Þá gengur ekki að ekki sé hægt að afgreiða fólk á kaffihúsum, bensínstöðvum og í bönkum, því það fer allt í gegnum símalínuna.“
Sambandið hefur verið stopult í langan tíma, en í október í fyrra var settur upp aukamóttökuskermur sem átti að leysa vandann. Hann tekur á móti merkjum frá símsendi á Hnjúki við Blönduós. Það virðist ekki hafa dugað til, en Oddný segir gærdaginn hafa verið sérstaklega slæman. „Sambandið datt út í gær um hálfþrjúleytið, og það var fyrst um hálffimmleytið að ég gat farið að hringja stutt símtöl. Ég komst samt ekki á netið.“
Sambandsleysið getur verið sérlega hættulegt yfir vetrartímann að sögn Oddnýjar, en Árneshreppur getur einangrast töluvert. „Ef slys myndi verða væri mjög hættulegt að hafa ekkert samband út úr byggðinni,“ segir Oddný.