„Ástand og umhirða í borginni er víða slæm og þá sérstaklega í úthverfunum,“ segir Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hún lagði í gær fram tillögu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þess efnis að farið verði í átak í bæði grasslætti og almennri umhirðu til að bæta ásýnd borgarinnar.
Marta bætir við að þegar allir skattar og öll gjöld séu í hámarki hjá borginni þá sé algjört lágmark að hægt sé að halda borginni hreinni og hafa hana snyrtilega. Þá bendir hún á að það sé greinilegt að ekki er slegið jafn oft í borginni og á árum áður en jafnframt hefjist slátturinn of seint.