Bannsvæði hvalveiða breytt

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Gefin hefur verið út reglugerð sem færir bannsvæði hvalveiða í Faxaflóa til fyrra horfs, til samræmis við þá ráðgjöf sem fyrir liggur. Kemur þetta fram í tilkynningu frá ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.

Breytingin fellir úr gildi ákvörðun sem fyrrverandi ráðherra tók í maí síðastliðnum. Í tilkynningunni segir að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra hafi farið yfir grundvöll framangreindrar ákvörðunar og er niðurstaðan sú að hún hafi ekki verið tekin á málefnalegum forsendum.

Segir ennfremur að nær 80% allra hrefna sem veiddar hafa verið í Faxaflóa undanfarin ár séu fengnar á svæði sem með ákvörðuninni frá því í maí síðastliðnum var bannað að stunda hrefnuveiðar á. Með henni var verulega að hagsmunum veiðanna vegið.

Í fréttatilkynningu sem fylgdi þessari ákvörðun í maí síðastliðnum kemur fram að við ákvörðun um afmörkun griðasvæðisins í Faxaflóa hafði þáverandi ráðherra að leiðarljósi hagsmuni hvalaskoðunar- og hrefnuveiðimanna og að jafnframt væri stuðst við tillögur meirihluta nefndar sem hafði verið falið að fjalla um það hvernig mörk milli hvalaskoðunar og hvalveiða skyldu afmörkuð í Faxaflóa. Tiltekið var að ákvörðun ráðherrans um nýtt griðasvæði hvalveiða í Faxaflóa gengi skemmra en tillögur meirihluta nefndarinnar. Nýtt griðasvæði hvala í Faxaflóa skyldi nú afmarkast frá Garðskagavita og beina línu norður að Skógarnesi.

Ákvörðunin í maí síðastliðnum var ekki í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar um afmörkun svæða til hvalaskoðunar frá mars 2009. Eins lá fyrir álit stofnunarinnar frá 2012 um að ekki hafi verið sýnt fram á að meint aukin fælni hrefnu í Faxaflóa stafi af hvalveiðum  á veiðisvæðinu.

Það er mat ráðherra að með þessari ákvörðun frá því í maí síðastliðnum hafi hvorki verið horft til vísindalegra sjónarmiða né hagsmuna hrefnuveiða á svæðinu. Sem fyrr er mikilvægt að stunda rannsóknir á hrefnu og að þær ákvarðanir sem teknar eru varðandi nýtingu þeirra, líkt og annarra sjávardýra, byggist á vísindalegum grunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert